Hoppa yfir valmynd
17.05. 2024 Utanríkisráðuneytið

Sjávarútvegsskóli GRÓ útskrifar 25 sérfræðinga

Hópmynd af útskriftarnemum. - mynd

Tuttugu og fimm sérfræðingar frá fimmtán löndum voru útskrifaðir frá Sjávarútvegsskóla GRÓ við hátíðlega athöfn á miðvikudaginn. Hópurinn hefur dvalið á Íslandi við nám síðustu sex mánuði og er sá 25. sem lýkur námi við skólann. Með útskriftinni á miðvikudaginn hafa því 488 nemendur frá 60 samstarfslöndum útskrifast frá skólanum.

Athöfninni var stýrt af forstöðumanni Hafrannsóknarstofnunar, Þorsteini Sigurðssyni, en stofnunin hefur hýst skólann frá upphafi. Elín R. Sigurðardóttir, skrifstofustjóri þróunarsamvinnuskrifstofu utanríkisráðuneytisins, færði útskriftarhópnum hamingjukveðjur frá Þórdísi Kolbrúnu Reykfjörð Gylfadóttur utanríkisráðherra. Þá færði Elín Hafrannsóknastofnun sérstakar þakkir fyrir framúskarandi framlag til starfsemi Sjávarútvegsskólans í meira en aldarfjórðung.

Þá vék hún að þeim áskorunum sem blasa við vistkerfum sjávar og vatna vegna ofveiða, hlýnunar jarðar, súrnunar og mengunar. Fiskveiðiþjóðir heims yrðu að vinna saman að því að finna lausnir á þessu og tryggja sjálfbærar veiðar til framtíðar. „Og, þið sem nú útskrifist frá Sjávarútvegsskólanum, hafið hér mikilvægu hlutverki að gegna,“ sagði hún.  

Jón Karl Ólafsson, stjórnarformaður GRÓ, og Þór Heiðar Ásgeirsson, forstöðumaður Sjávarútvegsskólann, ávörpuðu einnig samkomuna. Fyrir hönd nemenda þakkaði Eric T. S. Patten, frá Líberíu, starfsfólki Sjávarútvegsskólans, öllum fyrirlesurum, umsjónarmönnum og öðrum er að þjálfunarnáminu komu fyrir vel unnin störf. „Þrátt fyrir ólíkan bakgrunn okkar og menningu náðum við vel saman. Við hjálpuðumst að og hvöttum hvert annað til dáða. Þau tengsl sem við mynduðum og sú færni sem við öðluðumst mun nýtast vel þegar heim kemur.“ 

GRÓ – Þekkingarmiðstöð þróunarsamvinnu, samanstendur af Sjávarútvegsskólanum, Jarðhitaskólanum, Landgræðsluskólanum og Jafnréttisskólanum. Skólarnir eru allir mikilvægir hlekkir í þróunarsamvinnu Íslands.

  • Þorsteinn Sigurðsson, forstjóri Hafró, Elín R. Sigurðardóttir, skrifstofustjóri þróunarsamvinnuskrifstofu utanríkisráðuneytisins, útskriftarneminn Cesilia D. Mataba frá Tansaníu, og Jón Karl Helgason, stjórnarformaður GRÓ – Þekkingarmiðstöðvar þróunarsamvinnu. - mynd

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum