Hoppa yfir valmynd
15. maí 2024 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Stjórnunar- og verndaráætlun Þjórsárdals staðfest

Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, og Haraldur Þór Jónsson, sveitastjóri og oddviti Skeiða- og Gnúpverjahrepps. - mynd

Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra hefur staðfest stjórnunar- og verndaráætlun fyrir landslagsverndarsvæðið Þjórsárdal.

Þjórsárdalur markast að vestan við Þverá en að austri við Búrfell og liggur frá norðri til suðurs. Við innanverðan miðjan dalinn er fjallsmúli sem kallast Fossalda og ganga frá honum tveir háir ásar, Rauðukambar og Reykholt, þeir ganga fram í miðju dalsins og skipta dalnum í tvo hluta.

Hluti Þjórsárdals var friðlýstur sem landslagsverndarsvæði árið 2020 og er friðlýsingunni ætlað að vernda sérstæðar jarðmyndanir og landslag sem er sérstætt á landsvísu vegna fagurfræðilegs og menningarlegs gildis. Innan hins friðlýsta svæðis eru náttúruvættin Gjáin, Háifoss og Granni og Hjálparfoss. Friðlýsingin á einnig að stuðla að vernd líffræðilegrar fjölbreytni með verndun vistkerfa og endurheimt raskaðra vistkerfa með áframhaldandi vinnu við uppgræðslu og endurheimt birkiskóga.

Hjálparfoss.

Hjálparfoss.

Þá var menningarlandslag Þjórsárdals  friðlýst af þáverandi mennta- og menningarmálaráðherra árið 2021 og var sú friðlýsing á grundvelli laga um menningarminjar.

Í stjórnunar- og verndaráætluninni sem nú hefur verið samþykkt er lögð fram stefnumótum til framtíðar, ásamt aðgerðaáætlun til þriggja ára, en áætlunin var unnin í samstarfi Umhverfisstofnunar, landeigenda og annarra hagaðila. Svæðið er auk þess að hluta til innan þjóðlendumarka.

Markmiðið með gerð stjórnunar- og verndaráætlunar fyrir landslagsverndarsvæðið er að móta framtíðarsýn og stefnu um verndun svæðisins og hvernig viðhalda skuli verndargildi þess til framtíðar. Einnig er henni ætlað að samræma fjölbreytta hagsmuni þeirra sem nýta svæðið til landbúnaðar, ferðaþjónustu, útivistar og rannsóknar með hag náttúru og mannlífs að leiðarljósi. Vegna þess hve viðkvæmar jarðminjar og lífríki er að finna á svæðinu er lögð áhersla á stýringu umferðar gesta um svæðið.

Guðlaugur Þór Þórðarson umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra: „Þjórsárdalur er stórfenglegt svæði, með stöðum eins og Gjánni, Háafossi og Hjálparfossi, sem stendur nærri hjarta okkar Íslendinga. Það á sér líka afar langa og merkilega sögu sem fjöldi fornbýla og annarra minja vitnar um. Heimamenn eru mjög áhugasamir og vilja hlúa vel að Þjórsárdal og metnaður ríkir um að vel sé staðið að öllu á svæðinu. Meginmarkmið stjórnunar- og verndaráætlunar er að leggja fram stefnu um verndun svæðisins og hvernig viðhalda skuli verndargildi þess þannig að sem mest sátt ríki um.“

Landslagsverndarsvæði er flokkur friðlýsinga og er þar markmiðið að vernda landslag sem þykir sérlega verðmætt vegna fagurfræðilegs og/eða menningarlegs gildis, talið er sérstætt eða fágætt á svæðis-, lands- eða heimsvísu eða skipar mikilvægan sess í vitund þjóðarinnar.

Þjórsárdalur - Stjórnunar- og verndaráætlun

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum